|
Árni sá á mér aumur
Ég var að hjóla heim úr vinnunni áðan, klukkan rúmlega fimm, og bölvaði rigningunni í sand og ösku. Þá keyrir fram hjá mér ristastór, rauður jeppi með palli og skvettir yfir mig alla og ég fussa eins og mér framast er unnt. Ég fer yfir götuna og sé að rauði bíllinn hefur stoppað og maður stingur höfðinu út um gluggann og segir: á ég að skutla þér? Ég fattaði ekki alveg strax að hann væri að tala við mig, en þegar ég leit á manninn sá ég að hann horfði á mig og var augljóslega að tala við mig. Þegar ég gáði betur sá ég að þetta var Árni Johnsen!! Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið og mat aðstæður: RIIIGNING!!! "Játakk, það væri frábært" Og hann skellti hjólinu mínu á pallinn og skutlaði mér heim. Þetta var alveg magnað! Ágætis náungi, svona við fyrstu kynni. Já, það er fleira að frétta af mér. Ég er nefnilega komin í hljómsveit! Hún heitir Dýrðin og ég er hljómborðsleikari og bakrödd. Ég þarf bara að hlusta á disk með upptökum og pikka inn laglínu bakraddar og hljómborðs, við skulum nú sjá hvernig það gengur. Svo er æfing á þriðjudaginn. En þetta er ekki allt! Við erum nefnilega að fara að spila á Innipúkanum! (svo komst ég að því að nágranni minn, Benni, sem býr ásamt konu sinni, Auði, fyrir ofan mig, átti þátt í að stofna Inipúkann). En ég verð bara í hljómsveitinni í sumar. Svo er ég að fara í hljómfræðipróf á morgun klukkan 18. Gústi er í Noregi. Hann fór á kvikmyndahátíðina sem við fórum á í Tromsö í september í fyrra. Honum og Gumma var boðið þangað og tóku þeir myndina sína með sér. Ég fékk sms áðan þar sem mér var tilkynnt að myndin vann á hátíðinni fyrir bestu kvikmyndatónlistina! Gústi kemur heim á þriðjudaginn. Látið heyra í ykkur! Vala.
skrifað af Runa Vala
kl: 18:36
|
|
|